Virði hlutabréfa í Tesla minnkaði um sjö prósent í gær eftir að Elon Musk, eigandi og forstjóri, tók þá óvæntu ákvörðun að neita að svara spurningum fjármálagreinenda á símafundi um fjármál fyrirtækisins. „Leiðinlegar spurningar frá vitleysingum eru ekki töff, næsta spurning,“ sagði Musk.
Leyfði Musk því næst YouTube-bloggaranum Galileo Russell að spyrja alls tíu spurninga, enda snerust þær spurningar meira um tækni en fjármálin. Efraim Levy, greinandi hjá CFRA, sagði á fundinum að hegðun Musks væri undarleg. Þá sagði hann Musk ókurteisan.

