Erlent

Útilokar ekki að lögmaður Trump hafi einnig greitt öðrum konum fyrir þögn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rudy Guiliani, hér í forgrunni, er glæmýr í starfi fyrir Trump.
Rudy Guiliani, hér í forgrunni, er glæmýr í starfi fyrir Trump. Vísir/Getty
Rudy Guiliani, einn af lögmönnum Donald Trump, útilokar ekki að Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Bandaríkjaforseta, hafi greitt öðrum konum fyrir þögn vegna athæfis Trump, á sama hátt og Stormy Daniels fékk greiðslu. CNN greinir frá.



Guiliani, fyrrverandi borgarstjóri New York borgar er nýr meðlimur lögfræðiteymis Trumps vegna rannsóknarinnar á mögulegum afskiptum Rússa af forsetakosningunum ytra árið 2016. Í vikunni greindi hann frá því að Trump hefði endurgreitt Michael Cohen, lögmanni sínum, eftir að Cohen sá um gerð samkomulags við klámmyndaleikkonuna Stormy Daniels.

Samkomulagið, sem gert var skömmu fyrir kosningarnar gekk út á það að Daniels myndi þegja um að hún og Trump hefðu sofið saman árið 2006. Fékk hún greiddar 130 þúsund dollarara.

Ummæli Guiliani reyndust erfið fyrir Trump þar hann sagði í síðasta mánuði að hann hefði ekki vitað um tilvist samkomulagsins.

Í þættinum á ABC News í dag útskýrði Guiliani ummæli sín frekar og sagði hann að greiðslan frá Trump til Cohen hafi einfaldlega verið hluti af þeirri þjónustu sem Trump keypti af Cohen.

„Samkomulagið við Michael Cohen, eftir því sem ég best veit, er langtíma samkomulag sem felur í sér að Cohen sér um hluti eins og þessa og fær stundum greitt fyrir það,“ sagði Guiliani.

Stjórnandi þáttarins, George Stephanopoulos, spurði þá Guiliani um hæl hvort að hann vissi til þess að Cohen hefði greitt öðrum konum af hálfu forsetans.

„Ég hef ekki vitneskju um það en ég myndi halda að hafi það verið nauðsynlegt, þá já,“ sagði Guiliani.


Tengdar fréttir

Trump endurgreiddi lögmanninum þagnargreiðsluna

Rudy Giuliani segir að Donald Trump hafi endurgreitt lögmanni sínum, Michel Cohen, þá 130 þúsund dali sem varið var til að þagga niður í klámmyndaleikkonunni Stormy Daniels.

Erfiðleikar hjá Rudy Giuliani

Trump svaraði fyrir ummæli Rudys Giuliani, nýs lögfræðings síns, um Stormy Daniels-málið. Sagði Giuliani frábæran en minnti á að hann væri nýr í starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×