Í tilkynningu frá flokknum er haft eftir Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, oddvita Sósíalista í Reykjavík, að hún telji að almenningur geti ekki greitt „hinum auðugu arð af öllum stigum íbúðabygginga,“ eins og hún orðar það.
„Eins og staðan er í dag þurfum við að borga lóðabraskaranum sinn gróða, eigendum byggingavöruverslunarinnar sinn hagnað, verktakanum sína álagningu og eigendum leigufélagsins sinn arð. Þetta leggst ofan á alla vextina sem við borgum á endanum, vextina af okkar lánum og lánunum sem fyrirtækin taka. Fátækar fjölskyldur, láglaunafólk, lífeyrisþegar, öryrkjar og annað fólk sem er í húsnæðisvanda getur ekki staðið undir þessu öllu,“ er haft eftir Sunnu í tilkynningunni.
Daníel Örn Arnarson, verkamaður og annar maður á lista sósíalista, er á sama máli. „Við erum klemmd á milli lágra launa og okurleigu,“ er haft eftir Daníel í tilkynningunni. „Húsnæðiskerfið er byggt upp svo að fáir aðilar geti hagnast sem mest: Lóðabraskarar, byggingarvörufyrirtæki, verktakar, húsaleigufyrirtæki.“
„Hin verst settu geta ekki staðið undir hinum ríku. Þeir verða að finna sér aðra tekjulind en húsnæðiskreppu láglaunafólks.“Í tilkynningunni er hugmynd Sósíalista jafnframt reifuð. Þeir vilja að Reykjavíkurborg sjálf stofni byggingafyrirtæki, sem flytji sjálft inn byggingarefnið, byggi sjálft húsin á borgarlandi og leigi sjálf út íbúðirnar. Sósíalistar vilja að byggt verði upp húsnæðiskerfi sem er algjörlega einangrað frá „gróðafyrirtækjum,“ eins og þau orða það.
Máli sínu til stuðnings vísa Sósíalistar í söguna. Reykvíkingar stofnuðu til að mynda Bæjarútgerð Reykjavíkur til að útvega fólki örugga vinnu eftir stríð. Þá blása þau á þá gagnrýni að hugmyndir þeirra séu of kostnaðarsamar.
„Reykjavíkurborg réð við að byggja upp Hitaveituna, skipta út olíu- og kolakyndingu og setja heitt vatn í hvert hús,“ bendir Daníel á. „Ef markaðurinn hefði fengið að ráða værum við enn að hita húsin með kolum.“