PSG tryggði sér í gærkvöldi franska bikarmeistaratitilinn eftir 2-0 sigur á C-deildarliðinu Les Herbiers í úrslitaleiknum.
PSG var eins og gefur að skilja mun sigurstranglegri aðilinn í leiknum enda með afar digra peningasjóði á bak við sig. Öskubuskuævintýri Les Herbeiers lauk því án titils en leikmenn liðsins virtust hæstánægðir með að vera komnir í úrslitaleikinn.
Les Herbiers spilaði alls tíu leiki í frönsku bikarkeppninni, þann fyrsta fyrir framan 217 áhorfendur í október. Í gær léku þeir fyrir framan tæplega 80 þúsund áhorfendur á Stade de France og félagið sjálft seldi fimmtán þúsund miða á leikinn - sem er einmitt íbúafjöldi Les Herbiers.
Sjá einnig: Eiga fyrir launum Neymars í 16 daga en mæta PSG í úrslitum bikarsins
Þrátt fyrir ágæta byrjun Les Herbiers í leiknum náði PSG fljótt undirtökunum. Frönsku meistararnir áttu þrívegis skot í stöng áður en Giovani lo Celso kom þeim yfir. Edinson Cavani skoraði svo síðara mark PSG úr vítaspyrnu.
PSG varð einnig franskur meistari og deildarbikarmeistari í ár. Þetta er raunar fjórða árið í röð sem PSG verður bæði franskur bikarmeistari og deildarbikarmeistari en liðið hefur einnig orðið Frakklandsmeistari þrívegis á þessum tíma.
PSG hefur þó aldrei tekist að vinna Meistaradeild Evrópu og ekki komst liðið í úrslitaleik keppninnar í ár.

