Dagur Kár Jónsson gerði í dag tveggja ára samning við Stjörnuna í Garðabæ, en hann hefur leikið með Grindavík síðustu tvö tímabil.
„Að sjálfsögðu var þetta erfið ákvörðun. Mér leið virkilega vel í Grindavík, frábær tími þar að baki en virkilega gott að koma heim líka,“ sagði Dagur Kár við Arnar Björnsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Dagur er uppalinn í Garðabæ og spilaði með yngri flokkum Stjörnunnar.
„Ég vil taka þátt í því að gera þennan klúbb að því besta sem hann getur orðið,“ sagði Dagur.
Þá framlengdu Hlynur Bæringsson og Tómas Þórður Hilmarsson samninga sína við Stjörnuna.

