Antonio Hester er ekki í leikmannahópi Tindastóls sem mætir KR í DHL-höllinni í öðrum leik liðanna í lokaúrslitum Domino's-deildar karla í kvöld.
Hester, sem er bandarískur miðherji og lykilmaður hjá Tindastóli, hefur meiðst á báðum ökklum í síðustu tveimur leikjum Tindastóls. Hann harkaði af sér eftir fyrri meiðslin og spilaði í tapleiknum á Sauðárkróki á föstudag en sneri sig þá á hinum ökklanum. Hann kláraði engu að síður leikinn.
Eftir leik sagði Israel Martin, þjálfari Tindastóls, að það hefði verið ljóst að Hester hefði ekki verið tilbúinn að spila leikinn.
Tindastóll náði sér engan veginn á strik í leiknum á föstudag og vann KR sannfærandi sigur, 75-54. KR-ingar geta því komist í 2-0 forystu í einvíginu á heimavelli.
Chris Davenport mun því fá stærra hlutverk hjá Tindastóli en í síðustu leikjum. Leikurinn, sem hefst klukkan 19.15, er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en beina textalýsingu má lesa í fréttinni hér fyrir neðan.

