Erlent

Trump æfur vegna leka um að hann ætti ekki að óska Pútín til hamingju

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump er forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump er forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og John Kelly, starfsmannastjóri Hvíta hússins eru sagðir æfir yfir því að skilaboðum um að Trump ætti ekki að óska Vladimir Pútín, forseta Rússlands, til hamingju með sigurinn í forsetakosningum þar í landi, var lekið til fjölmiðla.

Greint var frá því í gær að í símtali við Pútín hafi Trump óskað honum til hamingju með kosningasigurinn en um helgina var Pútín endurkjörinn forseti Rússlands. Sagði Trump að símtalið hefði verið „mjög gott“.

Washington Post greinir hins vegar frá því að með hamingjuóskunum hafi Trump hunsað leiðbeiningar þjóðaröryggisráðgjafa sinna um að óska Pútín ekki til hamingju með sigurinn.

Þar segir að í leiðbeiningum sem Trump fékk  fyrir símtalið hafi staðið í hástöfum „EKKI ÓSKA TIL HAMINGJU“. Í frétt Washington Post segir þó að óvíst sé hvort Trump hafi farið yfir leiðbeiningarnar áðru en símtalið hófst.

CNN hefur eftir heimildarmönnum sínum að skömmu eftir að frétt Washington Post hafi farið í loftið hafi Trump og Kelly þegar hafið leit að þeim sem gæti hafa lekið upplýsingunum til fjölmiðla. Eru bæði Trump og Kelly sagðir æfir yfir lekanum.

Í frétt CNN kemur einnig fram að lekinn styrki Trump og Kelly í þeirri trú að innan stjórnar Trump séu einstaklingar sem reyni að grafa undan honum, þá sérstaklega í málum sem snerta þjóðaröryggi Bandaríkjanan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×