Eins og Vísir greindi frá í gær fingubrotnaði Brynjar Þór Björnsson á æfingu liðsins í gær og spilar ekki með liðinu næstu vikurnar. Hann hyggst þó ekki hætta eftir tímabilið.
„Í fyrsta lagi eftir fjórar vikur. Þetta tekur sinn tíma að gróa, en beinið brotnaði vel samkvæmt læknum. Þetta eru allavega fjórar vikur og það er seint í undanúrslitum (sem ég get spilað innsk. blm) ef það næst, en annars bara vonandi í úrslitunum,” sagði Brynjar í samtali við Arnar Björnsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.
„Þetta er í fyrsta skipti og á versta tíma. Ég hefði verið til í að þiggja þetta í október, en þetta er lífið. Þetta er partur af íþróttum og maður hefur séð marga meiðast á slæmum tíma og nú var komið að mér að vera óheppinn.”
Brynjar ætlar þó ekki að leggja körfuboltaskóna á hilluna eftir þetta tímabilið.
„Nei, langt því frá. Ég á nóg eftir. Þetta gerir mann enn tilbúnari fyrir næstu átök og þetta fær mann til þess að hugsa og muna að njóta leiksins. Þetta er ekki sjálfgefið og að eiga séns á að vinna titilinn fimmta árið í röð. Maður tekur hlutunum aldrei gefnum. Þetta er svekkjandi en lífið heldur áfram.”
Allt innslagið má sjá í spilaranum hér að ofan.
Brynjar hyggst ekki hætta eftir puttabrotið: „Ég á nóg eftir"
Tengdar fréttir

Brynjar puttabrotinn og misstir af næstu leikjum KR
Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði fjórfaldra Íslandsmeistara KR í Dominos-deild karla, mun ekki spila með liðinu næstu vikurnar vegna puttabrots.