KA skellti Þrótti í síðustu umferð A-deild Lengjubikarsins í dag en lokatölur urðu 5-1 sigur norðanmanna er liðin mættust í Egilshöll í dag.
Frosti Brynjólfsson, fæddur árið 2000, kom KA yfir á 29. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik en í síðari hálfleik opnuðust flóðgáttir.
Elfar Árni Aðalsteinsson kom KA í 2-0 snemma í síðari hálfleik og á 73. mínútu var röðin komin að Archange Nkumu en Þróttur klóraði í bakkann á 76. mínútu.
KA menn voru ekki hættir og áður en yfir lauk bættu Elfar Árni og Archange hvor við sínu markinu og varð niðurstaðan 5-1 sigur KA.
KA komst í undanúrslit Lengjubikarsins með sigrinum en þeir unnu alla leiki sína í riðlinum. Í undanúrslitunum mætir liðið Grindavík en Þróttur endar á botni riðils tvö með þrjú stig.

