Erlent

Gera ráð fyrir að viðtalið við Stormy Daniels verði sýnt á sunnudag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Klámstjarnan Stormy Daniels heitir réttu nafni Stephanie Clifford.
Klámstjarnan Stormy Daniels heitir réttu nafni Stephanie Clifford. Vísir/Getty
Viðtal fréttamannsins Andersons Cooper við klámstjörnuna Stormy Daniels, sem heldur því fram að hún hafi átt í ástarsambandi við Donald Trump Bandaríkjaforseta, verður sýnt á sjónvarpsstöðinni CBS sunnudaginn 25. mars næstkomandi, að því er fram kemur í frétt Variety.

Michael Cohen, lögmaður Trumps, greiddi Daniels 130 þúsund dali, sem samsvarar rúmum þrettán milljónum króna, einum mánuði fyrir forsetakosningarnar 2016. Greiðslan var vegna samkomulags um að hún myndi ekki segja frá því að hafa stundað kynlíf með forsetanum árið 2006.

Variety hefur eftir heimildarmönnum sínum að CBS hyggist sýna viðtalið í þættinum 60 Minutes sunnudaginn 25. mars.

Sjá einnig: Trump krefur Stormy Daniels um 20 milljónir í skaðabætur

Viðtal sjónvarpsmannsins Andersons Cooper við Daniels um meint samband hennar við Trump hefur nú þegar verið tekið upp. Samkomulag Daniels við forsetann, um að tjá sig ekki um sambandið, gæti þó orðið henni og sjónvarpsstöðinni fjötur um fót.

Lögmaður Daniels, Michael Avenatti, heldur því fram að forsetinn hafi aldrei skrifað undir samkomulagið og þá hefur Daniels auk þess boðist til að borga 130 þúsund dalina til baka svo henni verði frjálst að tjá sig um málið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×