Innlent

Ráðherra vill meira samráð um flutningskerfi raforku

Sveinn Arnarsson skrifar
Landsnet fagnar stefnu iðnaðarráðherra sem vill aukið samráð í raforkumálum.
Landsnet fagnar stefnu iðnaðarráðherra sem vill aukið samráð í raforkumálum. VÍSIR/EYÞÓR
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra boðar aukið samráð um málefni flutningskerfis raforku með því að setja á laggirnar hagsmunaráð sem á að styrkja áætlanagerð, framkvæmdir og forgangsröðun framkvæmda. Þetta kom fram í ræðu ráðherrans á ársfundi Landsnets í síðustu viku.

„Með slíku hagsmunaráði gefst tækifæri til að leiða saman ólíka hagsmunaaðila, draga fram nýjar hugmyndir um lausnir á ýmsum viðfangsefnum og ná fram betri skilningi á milli hagsmunaaðila um verkefnin fram undan,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Hagsmunaráð eins og þetta hefur verið starfrækt í Danmörku í á annan áratug. Landsnet fagnar þessari stefnu iðnaðarráðherrans og segir hana í takt við stefnu fyrirtækisins.

„Munurinn á því sem við erum að gera með samráðshópnum, verkefnaráðunum og hagsmunaráðinu sem Kolbrún talar um er að verkefnaráðin okkar eru um einstaka framkvæmdir. Hagsmunaráðinu er hins vegar ætlað að fókusera á stærri myndina,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.

„Við hjá Landsneti vonumst til að það verði skipað í ráðið fljótlega, vinna við kerfisáætlun er komin í gang. Skipun hagsmunaráðsins er í takt við stefnu okkar um samtal og samráð fyrr í ferlinu og því fögnum við því,“ bætir Steinunn við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×