Skoðun

Enn um Kristmann og Thor

Óttar Guðmundsson skrifar
Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður og fyrrum yfirlesari Forlagsins, skrifaði fallega lofgrein um föður sinn í Fréttablaðið þ. 7. marz sl. Tilefnið voru bakþankar mínir um viðureign Kristmanns Guðmundssonar við hinn vinstrisinnaða listaheim á sjöunda áratug liðinnar aldar.

Mér þykir vænt um að hafa aðstoðað Guðmund Andra við að halda nafni föður síns á lofti og er reyndar sammála flestu sem þingmaðurinn segir. Thor Vilhjálmsson var gáfaður maður og ágætur rithöfundur. Guðmundur Andri misskilur reyndar margt og rangtúlkar annað en það gerir ekkert til.

Mér finnst full ástæða til að rifja upp grein Thors sem var tilefni málaferlanna. Þar stendur m.a.: „Það er óafmáanleg svívirðing frá hendi stjórnmálamanna í garð íslenzkrar menningar að láta mann einsog Kristmann Guðmundsson hafa hæstu listamannalaun. Það jafngildir því að hrækja í andlitið, á hverjum einasta raunverulegum listamanni þessa lands og spræna yfir alla þjóðina.“

Þetta er dapurlegur texti þar sem lítið fer fyrir einhverri orðkynngi. Framhaldið er í sama stíl þar sem hann ræðst gegn Bjarna Benediktssyni sem hann kallar „lítinn voldugan mann“ og segir Kristmann vera „rógsendil“ hans. Það er erfitt að túlka slíka grein sem nokkuð annað en pólitískan skæting eða skítkast. Hún kastar þó engri rýrð á önnur verk Thors eða manninn sjálfan. Ég er enn þeirrar skoðunar að tími hafi verið kominn til að gera málinu hlutlæg skil og fagna bók Sigurjóns Magnússonar, Borgir og eyðimerkur, um efnið. Þó Thor telji Kristmanni allt til foráttu hafði hann þó ákveðna kosti eins og kemur fram í frægri vísu eftir Jóhannes úr Kötlum:

Lít ég einn sem list kann

löngum hafa þær kysst hann

Kristmann.

Kristmann svaraði reyndar að bragði:

Einkum þó vér ötlum

að þær fari úr pjötlum

í Kötlum.

Höfundur er geðlæknir.




Skoðun

Sjá meira


×