Vonn tókst ekki að vinna gull í sinni bestu grein, bruni, á Vetrarólympíuleikunum í PyeungChang í nótt en hún þurfti að sætta sig við bronsið. Hún skíðaði til minningar um afa sinn sem lést skömmu fyrir leikana en hún ætlaði að vinna gullið fyrir hann.
Vonn þurfti að mæta í viðtal á Eurosport skömmu eftir að úrslitin lágu fyrir og má segja að tilfinningarnar hafi borið hana ofurliði. Hún mætti í tárum í viðtalið en komst í gegnum það eins og henni einni er lagið.
„Mér fannst ég skíða vel. Nógu vel til að ná verðlaunum. Ég gerði mitt besta en það var ekki nóg. Ég er stolt af frammistöðunni og því að vinna til verðlauna,“ sagði Vonn sem var sérstaklega ánægð með að norska vinkona sín Ragnhild Mowvincel vann silfur.
„Ragna er frábær skíðakona og hún hefur verið virkilega öflug síðustu vikur. Það var æðislegt að sjá hana fá silfur í stórsviginu og bruninu. Hún er ein sú viðkunnalegasta á mótaröðinni þannig ég samgleðst með henni,“ sagði Vonn sem veit ekki hvort hún keppir aftur á ÓL.
„Fyrir fjórum árum var ég nýkomin úr aðgerð eftir annað krossbandsslit. Ég er ánægð með árangurinn í ár en ég vil alltaf vinna. Maður þarf samt alltaf að líta á stóru myndina. Ég hef gengið í gegnum ýmisegt en er stolt að hafa gert mitt besta,“ sagði Lindsay Vonn.
Viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan.