Sport

Hjónin þurfa að skila bronsinu sem þau unnu á ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anastasia Bryzgalova og Alexander Krushelnitsky.
Anastasia Bryzgalova og Alexander Krushelnitsky. Vísir/Getty
Rússneski krullukappinn Alexander Krushelnitsky hefur verið fundinn sekur um ólöglega lyfjanoktun á Ólympíuleikununum í Pyeongchang. Alþjóðaíþróttadómstóllinn skilaði niðurstöðu sinni í nótt.

Alexander Krushelnitsky og kona hans Anastasia Bryzgalova unnu bronsverðlaun í parakeppni krullunnar en þau kepptu undir fána Alþjóðaólympíunefndarinnar þar sem Rússar máttu ekki keppa undir eigin merkjum.





Þetta voru fyrstu verðlaun Rússa í krullu á Ólympíuleikun en Alexander Krushelnitsky fór síðan í lyfjapróf og þar fannst meldonium, efnið sem felldi líka tenniskonuna Mariu Sharapovu fyrir tveimur árum.

Rússneska íþróttafólkið sem keppir á leikunum fékk leyfi til að keppa í Pyeongchang ef að það gat sannað að það væri „hreint“ eða hafi verið að æfa þar sem viðurkennt lyfjaeftirlit væri í gangi.

Það kom þó ekki í veg fyrir að fyrsti verðlaunahafinn sem féll á leikunum í Pyeongchang hafi verið rússneskur.

Alexander Krushelnitsky neitaði sök þegar hann kom fram fyrir Alþjóðaíþróttadómstólinn og sagðist vera á móti ólöglegri lyfjanotkun og að hann hafi alltaf reynt að fylgja þeim reglum sem væru í gildi í þessum málið. Hann sagði þetta líka vera mikið áfall fyrir sig, orðspor þeirra hjóna sem og feril þeirra.

Þrátt fyrir það hafa Alexander Krushelnitsky og eiginkona hans samþykkt að skila bronsverðlaunum en þau fara nú væntanlega til Norðmannanna Kristin Skaslien og Magnus Nedregotten.

Dmitry Svishchev, forseti rússneska krullusambandsins, sagði samt vonast til þess að þetta væri aðeins tímabundið og að hjónin fengju bronsverðlaunin sín aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×