Skoðun

Gerum betur

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Brottfall úr framhaldsskólum landsins er alvarlegt vandamál. Hjá fámennri þjóð skiptir hver einstaklingur máli og hvert og eitt ungmenni sem missir fótanna á unglingsárunum er skaði fyrir samfélagið. En verstur er skaðinn fyrir viðkomandi einstakling, menntun er lykill að samfélaginu, lykill að tækifærum og sjálfsþroska. Nú þegar rannsóknir sýna að einn af orsakavöldum brottfalls er sálræn veikindi er nauðsynlegt að bregðast hratt við.

Nærri öll börn skrá sig í framhaldsskóla að loknu námi í grunnskóla. Það vantar því ekki skilning hjá þeim á mikilvægi náms. En alltof mörg gefast upp og hætta á leiðinni. Reyndar er vandinn ekki bara sá að krakkarnir hætta, námsframvindan á framhaldsskólastiginu er hæg, ein sú hægasta innan OECD.

Ástæðurnar eru margvíslegar og lausnirnar þurfa að endurspegla það. Ég trúi því að nú sé að myndast skilningur á því að nauðsynlegt sé að bjóða upp á sálfræðiþjónustu í skólunum, í nærumhverfi krakkanna. En fleira þarf til. Áhrif samfélagsmiðla á andlega heilsu barna hljóta að vera til alvarlegrar skoðunar. Við sjáum að greiningum fer fjölgandi hjá grunnskólabörnum og það er eitthvað að í samfélagi þar sem svona stór hluti barna þarf sérfræðiaðstoð eins og þekkist hér.

Þegar við ræðum um brottfall í framhaldsskólanum þá þurfum við nefnilega að beina sjónum okkar að grunnskólanum. 30% drengja sem ljúka námi á því skólastigi geta ekki lesið sér til gagns. Vitanlega hefur það áhrif á hvernig þeim gengur í framhaldsskóla. Við þurfum að spyrja okkur hvort krakkarnir okkar komi vel undirbúin úr grunnskólanum, menntunarlega, andlega og líkamlega þannig að þeim gangi vel í framhaldsskólanum.




Skoðun

Sjá meira


×