Skoðun

Bleika ógnin

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Dagurinn í dag markar hápunkt, en um leið endalok, þríleiksins kærkomna sem hefur löngum yljað landsmönnum þennan erfiðasta tíma ársins. Naglinn rekinn í kistuna og kötturinn sleginn úr tunnunni. Það er öskudagur. Og hvílík gæfa! Hugsa sér, að þremur góðum dögum, hvar aðalmarkmiðið er að borða þangað til hriktir í þörmunum, hafi verið skeytt inn á dagatalið á svo heppilegum stað.

Þakklætið er auðvitað sérstaklega alltumlykjandi í ár, nú þegar hver öskrandi lægðin gengur yfir landið á fætur annarri og stöðvar umferð, pitsusendingar og lífsvilja í brjóstum manna. Við værum líklega öll löngu flutt í boðlegra loftslag ef okkur byðist ekki bolla að maula eða sælgætismoli úr skjóðu grímuklædds barns þessa haganlega staðsettu daga.

En nú steðjar ógn að þrefaldri hátíð sáluhjálpar í febrúar 2018. Í dag er nefnilega, auk öskudags – og ekki hafa þetta eftir mér – Valentínusardagur. Hann siglir bleikur og súkkulaðihúðaður yfir hafið úr vestri, fjöldaframleiddur í bandarískri verksmiðju í Taívan, berst í gegnum íslenska storminn og virðist kominn til að vera. Hann er sérhannaður fyrir elskendur og dansar nú kapítalískan dans við erkihátíð barnanna, téðan öskudag.

Og enn og aftur erum við, sem hvorki erum börn né höfum fundið okkur lífsförunaut, skilin harkalega út undan. Máttlaus gagnvart regluverki samfélagsins. Litin hornauga ef við reynum að raula fallegt lag úti í apóteki í skiptum fyrir sælgætismola, og 2-fyrir-1-elskendatilboð á hamborgarabrauðum í kjörbúðinni er dæmt til að skemmast vegna þess að við höfum engan til að deila því með. Þannig að, hvað er til ráða? Kaupa sér sitt eigið nammi og kraftsvæpa á Tinder? Kannski. Ég læt ykkur vita hvernig fer.




Skoðun

Sjá meira


×