Innlent

Áverkar á konunni sambærilegir við beitingu kyrkingartaks með miklu afli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi í tæpar sex vikur. Hann neitar sök.
Maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi í tæpar sex vikur. Hann neitar sök. Vísir/Sigurjón
Landsréttur hefur framlengt gæsluvarðhald yfir karlmanni sem sterklega grunaður er um tilraun til manndráps. Maðurinn hefur verið í varðhaldi síðan í byrjun desember. Hann var handtekinn 3. desember og gefið að sök að hafa ráðist á fyrrverandi kærustu sína.

Lögregla mætti á svæðið eftir að tilkynnt var um mikil öskur frá konu fyrir utan hús í Holtunum í Reykjavík.

Í fyrri gæsluvarðhaldskröfu lögreglunnar kom fram að tvö vitni hefðu verið að öskrum konunnar. Annað vitnið hefði heyrt manneskju öskra „get ekki andað, get ekki andað“ og „hann var að reyna að drepa mig – hann var að kyrkja mig.“ Annað vitni kvaðst hafa séð stúlku sem hefði átt erfitt með að ná andanum. 

Lögreglan hefur grun um að maðurinn sé ekki sá sem hann segist vera. Lögreglan hefur undir höndum tvö vegabréf í eigu mannsins, annað þeirra er falsað, og gefa þau mismunandi upplýsingar um nafn, fæðingardag og upprunaland mannsins. Hann kom til landsins árið 2012 og er hann talinn hafa gefið yfirvöldum rangar upplýsingar.

Rannsókn lögreglu lokið

Í málinu liggi fyrir skýrsla Sebastian Kunz réttarmeinafræðings sem skoðaði konuna þann 4. desember. Í niðurlagi skýrslu hans segir meðal annars svo:

„Áverkar þolandans eru sambærilegir við beitingu kyrkingartaks með miklu afli, sem mögulega leiddi til meðvitunarleysis. Þar sem kyrking með höndum er margbrotin í eðli sínu, verður að flokka aflmikla kyrkingu með höndum eins og í þessu tilviki, sem a.m.k. mögulega lífshættulega.“

Rannsókn lögreglu er lokið og er málið á borði héraðssaksóknara þar sem tekin verður ákvörðun um hvort ákæra verði gefin út í málinu.

Dóm Landsréttar má lesa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×