Ummæli Trump á fundi með þingmönnum í Hvíta húsinu á fimmtudag hafa verið harðlega gagnrýnd en sjálfur hefur hann þrætt fyrir að hafa látið þau falla.
Kirstjen Nielsen, heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, var viðstödd fundinn í Hvíta húsinu. Þegar hún kom fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í gær sagðist hún ekki hafa heyrt Trump tala um Haíti og nokkur Afríkuríki sem skítaholur. Hún þrætti þó ekki fyrir að Trump hefði notað „hart orðalag“. Hann gæti jafnvel hafa notað orðið „skítur“, að því er segir í frétt NBC-fréttastofunnar.
Þingmenn demókrata spurðu Nielsen út í Noreg en ummælum Trump hefur verið tekið þannig að hann kjósi frekar innflytjendur frá löndum þar sem flestir eru hvítir frekar en þar sem meirihluti er dökkur á hörund.
Nielsen treysti sér þó ekki til að taka algerlega af öll tvímæli um að meirihluti Norðmanna væri hvítur þegar hún var spurð um það.
„Ég veit það reyndar ekki, herra, en ég ímynda mér að það sé tilfellið,“ svaraði Nielsen.