Takk fyrir opið bréf til mín sem birt var á Vísi í gærmorgun. Þú fjallar þar um kjarabaráttu kennara og spyrð mig einfaldrar spurningar, hvort ég muni beita mér fyrir kjarabótum grunnskólakennara. Við því er einfalt svar og skýrt: Já, ég mun gera það. Það hef ég reyndar gert frá því ég tók sæti í borgarstjórn árið 2014 og reyndar fyrir þann tíma.
Það er því ekki rétt sem þú segir í bréfinu að ég og mínir félagar hafi „staðið gegn launaleiðréttingu kennara hingað til“.Þvert á móti, við hjá borginni höfum sérstaklega talað fyrir því á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga í samningaviðræðum síðustu ára að það ætti að teygja sig til hins ítrasta til að mæta sanngjörnum kröfum kennara.

Eins og hér sést hafa dagvinnulaun kennara hækkað umfram laun annarra háskólamenntaðra í störfum hjá borginni frá 2014. Á sama hátt hafa launahækkanir kennara verið meiri en annarra háskólamenntaðra hjá borginni á sama tímabili og halda í við hækkun launa á almennum markaði. Rétt er að halda til haga að á móti hluta af þessum hækkunum kom sala réttinda sem kom sveitarfélögunum til góða.

Metnaður okkar og forgangsmál í meirihluta borgarstjórnar er að búa vel að okkar kennurum, bæði varðandi laun og starfsumhverfi. Þess vegna höfum við bætt 9 milljörðum króna í menntakerfið í borginni á kjörtímabili, þar af 7 milljörðum í hærri laun starfsfólks í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi. Með því viljum við sýna í verki að við metum ykkar mikilvægu störf að verðleikum og á sama tíma þurfum við að vinna að því að laða fleiri til kennarastarfa í Reykjavíkurborg, sem ég þreytist ekki á að minna á að eru einhver þau mikilvægustu í íslensku samfélagi.
Skúli Helgason
borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður skóla- og frístundaráðs.