Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst klukkan 14:15 neyðarkall frá farþegabáti sem hafði steytt á skeri á Breiðafirði, um þrjá kílómetra austur af Stykkishólmi. Átta manna bresk fjölskylda var um borð ásamt skipstjóra og slasaðist einn við strandið. Meiðslin eru ekki talin alvarleg.
Með samhentu átaki björgunarsveitarfólks og skipverja á nærstöddum bátum tókst að bjarga bátnum frá því að sökkva og var hann hífður á land í höfninni í Stykkishólmi um fjögur leytið.

„Við vorum að sigla nálægt þegar neyðarkallið barst og við fórum að reyna að hjálpa til. Eftir tíu mínútur rúmar komum við á staðinn ásamt fleiri bátum og margir hjálpuðust að,“ segir Mattías í samtali við Vísi.
Mattías segir jafnframt að fólkið hafi ekki verið í hættu en að því hafi verið talsvert brugðið. „Það var ekki beint hræðsla um borð en þetta var sjokk náttúrulega. Fólkið var í sjokki en almennt var vel að þessu staðið hjá skipstjóranum um borð.“