Tæknirisinn Apple hefur beðist afsökunar á því að hægja á iPhone-símum viðskiptavina sinna. Fyrirtækið birti afsökunarbeiðnina á vefsíðu sinni í dag og hyggst koma til móts við óánægða notendur.
Í síðustu viku staðfesti Apple grunsemdir margra um að fyrirtækið hafi hægt viljandi á eldri gerðum iPhone-snjallsíma. Uppgefin ástæða fyrirtækisins var þá sú að gæði rafhlaðna í eldri símum rýrni með tímanum og því þurfi að hægja á stýrikerfi tækjanna til að halda í við rafhlöðuna.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu, sem birtist í dag, er þó áréttað að aldrei hafi neitt verið gert vísvitandi í þeim tilgangi að stytta líftíma símanna.
„Fyrst og fremst höfum við aldrei – og myndum aldrei – gera neitt sem yrði vísvitandi til þess að stytta líftíma nokkurrar Apple-vöru, eða gera lítið úr upplifun notenda til þess að keyra uppfærslur,“ segir í tilkynningunni.
Lækka verð á rafhlöðuskiptaþjónustu sinni
Þá hyggst fyrirtækið leita ýmissa leiða til að koma til móts við viðskiptavini sína vegna málsins. Verð á rafhlöðuskiptum í símtækjum sem ekki eru lengur í ábyrgð mun til að mynda lækka um 50 Bandaríkjadali, eða rúmar 5000 íslenskar krónur. Um er að ræða síma af gerðinni iPhone 6 og allar yngri útgáfur sem komið hafa á eftir. Verð fyrir rafhlöðuskipti hjá Apple fer úr 79 Bandaríkjadölum, eða rúmum 8000 íslenskum krónum, og niður í 29 dali, eða um 3000 íslenskar krónur.
Þá ætlar Apple gefa út hugbúnað á næsta ári sem gerir notendum kleift að fylgjast með ástandi rafhlaða í iPhone-símum og meta þannig líftíma þeirra.
Samsæriskenningar þess efnis að Apple hægi viljandi á eldri gerðum síma til að hvetja til kaupa á nýrri gerð hafa oft litið dagsins ljós undanfarin ár. Þá hafa tveir Ísraelar kært fyrirtækið fyrir að hafa meðal annars leynt notendur upplýsingum.
Apple biður viðskiptavini sína afsökunar

Tengdar fréttir

Apple gengst við því að hægja viljandi á gömlum iPhone-símum
Forsvarsmenn Apple segja að líftími liþíumjónabattería valdi því að hægja þurfi á kerfinu. Gæði batteríanna rýrni með tímanum og því þurfi að hægja á nýjustu stýrikerfum svo síminn slökkvi einfaldlega ekki á sér.

Apple hyggst kaupa Shazam fyrir 42 milljarða
Bandaríska tæknifyrirtækið Apple hyggst kaupa smáforritið Shazam fyrir jafnvirði tæplega 42 milljarða króna.

Kæra Apple fyrir að hægja viljandi á iPhone-snjallsímum
Apple staðfesti í síðustu viku grunsemdir margra um að fyrirtækið hægi viljandi á eldri gerðum iPhone-snjallsíma.