Fréttablaðið hefur fjallað ítarlega um mál Sigurbjargar að undanförnu, en leigusamningur hennar var ekki endurnýjaður þar sem hún hafði gerst brotleg við húsreglur um dýrahald. Sigurbjörg býr í íbúð sinni í Hátúni ásamt pomeranian-hundinum Hrolli sem hefur reynst eigandanum mikilvægur félagsskapur í gegnum tíðina. Upphaflega bar Sigurbjörgu að skila íbúðinni 1. desember síðastliðinn. Hún kærði ákvörðun Brynju til kærunefndar húsnæðismála í velferðarráðuneytinu og hélt hún hefði keypt sér tíma meðan málið væri til meðferðar.

Í bréfinu er henni hótað útburði, en þar segir:
„Verði ekki orðið við því innan 3ja daga frá birtingu áskorunar þessarar mun verða farið fram á aðfararheimild hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og þess síðan krafist að þú verðir borin út úr húsnæðinu með atbeina sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.“
Sigurbjörg er hvumsa yfir þessu útspili og furðar sig á að hægt sé að fara út í aðgerðir sem þessar áður en úrskurður kærunefndar liggur fyrir.
„En ég er ekki lögfræðingur, ég er bara öryrki hérna. Ég er að brjóta húsreglur, engin spurning um það, en ég er á því að Brynja sé að brjóta lög með þessari mismunun,“ segir hún og vísar þar í að fjöldi íbúa í Hátúni haldi gæludýr. Hún kveðst ekki ætla að verða við áskoruninni.
„Ég verð bara að sitja og bíða. Leyfa þeim að bera mig út, hvenær sem það verður. 24. desember kannski.“