Innlent

Sextán prósent íbúðarhúsa á Flúðum notuð sem sumarhús

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Um 16% íbúða á svæðinu eru eingöngu notaðar sem sumarhús.
Um 16% íbúða á svæðinu eru eingöngu notaðar sem sumarhús. vísir/stefán
Sextán prósent húsa í Hrunamannahreppi, þá aðallega á Flúðum, eru notuð sem sumarhús þar sem enginn er með lögheimili skráð. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu um húsnæðisáætlun Hrunamannahrepps.



Halldóra Hjörleifsdóttir, oddviti Hrunamannahrepps.
Tuttugu íbúðir hið minnsta eru óskráðar en í flestum tilfellum felst það í því að búið er að innrétta bílskúra sem íbúðir eða að einbýlishúsum hefur verið skipt upp í minni íbúðir. Þá er einnig þekkt að iðnaðarhúsnæði sé notað sem íbúðarhúsnæði og að föst búseta sé í frístundahúsum.

„Nýjar reglur um svona útleigu, sem teknar voru upp, eru erfiðar í framkvæmd og eftirlitið sem á að vera hjá sýslumanninum í Reykjavík erum við ekki að sjá að virki. Ég tel því að það þurfi að endurskoða þær reglur,“ segir Halldóra Hjörleifsdóttir, oddviti Hrunamannahrepps. Sveitarstjórn hefur samþykkt að við munum ekki samþykkja að íbúðarhúsnæði í þéttbýlinu verði breytt í gistihús umfram 90 daga regluna og erum við þar með að reyna að koma í veg fyrir eins og við getum að húsnæði hér sé keypt upp til að það sé eingöngu notað til skammtímaleigu“, segir Halldóra en mikill skortur er á húsnæði í Hrunamannahreppi.

„Þessi mikla vöntun hefur valdið því að fjölgun hefur ekki orðið hjá okkur þrátt fyrir að mikil atvinna sé á svæðinu og innviðir geti tekið við fleiri íbúum. Það húsnæði sem hefur verið á sölu nú á síðustu mánuðum hefur selst og sýnir það að áhugi á að setjast hér að er að verða meiri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×