Íslenski boltinn

Kristinn: Hlakka til að klæðast Valstreyjunni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kristinn Freyr Sigurðsson skrifaði undir fjögurra ára samning við Íslandsmeistara Vals fyrr í dag.

Hann sagði það mjög gott að vera kominn aftur heim, en hann spilaði með Val árin 2012-16.

„Ég hlakka mikið til að klæðast Valstreyjunni aftur og fara að spila með strákunum,“ sagði Kristinn í samtali við Vísi í dag.

Kristinn spilaði með Sundsvall í sænsku úrvasldeildinni síðasta tímabil, en hann fór út í atvinnumennskuna eftir að hafa verið valinn besti leikmaður Íslandsmótsins sumarið 2016. En afhverju ákvað hann að snúa aftur heim?

„Fyrst og fremst fjölskylduástæður. Við fjölskyldan ákváðum það í sameiningu að þetta væri besti kosturinn eftir stutta dvöl úti. Skemmtilegt ævintýri sem ég var í sem okkur fannst best að enda og koma heim.“

Vísir greindi frá því fyrr í vikunni að Kristinn væri í viðræðum bæði við Val og FH. Aðspurður hvað hafi ráðið því að hann kaus Val sagði Kristinn „Ég hef verið hérna í fimm ár, þekki allt hérna. Leið mjög vel hér og veit að hverju ég geng, svo að sjálfsögðu metnaðurinn í félaginu. Ég hlakka bara til þessara fjögurra ára og get ekki beðið eftir að komast í treyjuna og byrja að spila,“ sagði Kristinn Freyr Sigurðsson.

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals var að vonum ánægður með liðsstyrkinn.

„Já, ég er feykilega ánægður með hann. Kristinn var náttúrulega með okkur hérna, stóð sig feikna vel svo við lögðum mikla áherslu á að fá hann.“

Nú þegar eru Ívar Örn Jónsson og Ólafur Karl Finsen komnir til félagsins. Aðspurður hversu marga leikmenn Ólafur ætlaði sér að fá til viðbótar sagði hann: „Mér kæmi ekki á óvart að ég fengi 5-6 leikmenn í viðbót.“ Hann hafði þá áður sagt við annan fjölmiðil að hann ætlaði sér að fá 3-4. Hann fór nú bara að hlæja þegar blaðamaður spurði hann út í þetta ósamræmi og sagði það bara koma í ljós hver lokatalan yrði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×