
Fréttamaður ABC settur í straff eftir ranga frétt um Flynn

Brian Ross, rannsóknarblaðamaður fréttastofu ABC greindi frá því á föstudaginn að Flynn væri tilbúinn að bera vitni um að Trump hefði skipað honum að setja sig í samband við Rússa í kosningabaráttunni í fyrra. Það kom í framhald frétta um að Flynn hefði játað sig sekan um að hafa logið að alríkislögreglunni FBI um samskipti sín við Rússa og gert samkomulag við Robert Mueller, sérstakan rannsakanda dómsmálaráðuneytisins.
Síðar leiðrétti Ross fréttina og sagði að heimildarmaður sinn segði að Trump hefði beðið Flynn um að hafa samband við Rússa eftir að hann hafði verið kjörinn forseta en áður en hann tók við embættinu. Fréttastofan var harðlega gagnrýnd fyrir að gefa ekki strax út leiðréttingu.
Nú segir AP-fréttastofan að Ross hafi verið settur í tímabundið leyfi vegna klúðursins. ABC-fréttastofan hefur jafnframt beðist afsökunar á mistökunum.
Vísir greindi frá frétt ABC-fréttastofunnar á föstudag sem fleiri bandarískir fjölmiðlar höfðu þá vitnað í. Sú frétt var uppfærð eftir að ABC leiðrétti upphaflegu frétt sína.
Tengdar fréttir

Mueller veik FBI-manni til hliðar vegna skilaboða um Trump
Alríkislögreglumaður sem vann við rannsókn á afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum er grunaður um að hafa skipst á skilaboðum við hjákonu sína sem túlka mætti sem neikvæð um Trump forseta.

Segir Flynn ekki hafa aðhafst neitt ólöglegt
Donald Trump Bandaríkjaforseti tjáði sig um ákæruna á hendur Michael Flynn á Twitter-síðu sinni í dag.

Flynn játar ákæru um að hafa logið að alríkislögreglunni
Fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið ákærður fyrir að hafa logið að alríkislögreglunni FBI við yfirheyrslur.

Trump eftir nýjustu ákæruna: „Alls ekkert samráð“
Fjórir starfsmenn forsetaframboðs Donalds Trump hafa verið ákærðir. Trump fullyrðir að ekkert samráð hafi átt sér stað við Rússa í kosningabaráttunni.

Flynn lýsir sig reiðubúinn að aðstoða Mueller
Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta, lýsti sig sekan fyrir dómi af því að hafa logið að bandarísku alríkislögreglunni. Þá hefur hann samþykkt að aðstoða Robert Mueller, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins.