Eriksen dró Dani til Rússlands

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Eriksen fagnar einu marka sinna í kvöld.
Eriksen fagnar einu marka sinna í kvöld. vísir/getty
Christian Eriksen gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu er Danmörk tryggði sér sæti á HM í Rússlandi næsta sumar. Danir skelltu þá Írum 1-5 á útivelli í kvöld en fyrri leik liðanna á Parken lyktaði með markalausu jafntefli.

Það blés ekki byrlega fyrir Dönum er Shane Duffy kom Írum yfir strax á 6. mínútu leiksins. Danir aftur á móti efldust við mótlætið og jöfnuðu með sjálfsmarki á 29. mínútu eftir fína sókn.

Aðeins þrem mínútum síðar kom Christian Eriksen Dönum yfir með glæsilegu marki. Skyndisókn hjá Dönum sem endaði með innanfótarskoti frá Eriksen. Sláin inn. Það mátti ekki minna vera.

Eriksen kláraði svo einvígið endanlega með öðru innanfótarskoti frá vítateig í síðari hálfleik. 1-3 og Danir á leið til Rússlands.

Eriksen var þó ekki orðinn saddur því hann fullkomnaði þrennuna eftir varnarmistök Íra og klíndi boltanum upp í samskeytin. Þvílík frammistaða en hann endaði með 11 mörk í 12 leikjum í þessari undankeppni.

Undir lok leiksins fékk Niklas Bendtner vítaspyrnu. Eriksen leyfði Bendtner að taka vítið og sá sveik ekki með frábærri vítaspyrnu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira