Læknar í indversku borginni Delí hafa lýst yfir lýðheilsuneyðarástandi vegna gríðarlegrar loftmengunar og hafa hvatt borgarbúa til að halda sig heima. Að anda að sér menguninni í borginni hefur verið líkt við að reykja fimmtíu sígarettur á einum degi.
Hægur vindur og kuldi hefur leitt til þess að mengunarský hefur setið yfir borginni í stað þess að dreifast, að því er kemur í frétt The Guardian. Delí er ein mengaðasta borg í heimi af völdum ryks af vegum, opinna elda, útblásturs bifreiða og verksmiðja og bruna á afgangsuppskeru í nærliggjandi sveitum.
Grunnskólar eru lokaðir í borginni í dag og mögulega lengur. Læknar hafa ennfremur hvatt til þess að fyrirhuguðu hálfmaraþoni verði aflýst til að forðast „hörmulegar heilsuafleiðingar“. Arvind Kejriwal, forsætisráðherra Delísvæðisins, líkir ástandinu í borgnini við „gasklefa“. Ríkisstjórn hans kom saman á neyðarfundi í gær til að ræða viðbrögð.
Arvind Kumar, yfirmaður brjóstholsskurðlækninga á Sir Ganga Ram-sjúkrahúsinu, segir loftmengunina hafa hræðileg áhrif á alla líkamshluta fólks. Loftgæðin sem hafi mælst í sumum hlutum borgarinnar séu sambærileg við að reykja að minnsta kosti fimmtíu sígarettur á dag. Gjörgæsludeildir hafi fyllst af lungasjúklingum.
„Þeir ná ekki andanum,“ segir Kumar.
Rannsókn sem birtist í læknaritinu The Lancet í síðasta mánuði sýndi að tvær og hálf milljón Indverja láta lífið af völdum mengunar á hverju ári.
Loftmengunin í Delí á við að reykja fimmtíu sígarettur á dag
Kjartan Kjartansson skrifar
