Skoðun

Umbrot

Ari Trausti Guðmundsson skrifar
Í umbrotunum á undan kosningunum bar nokkuð á því að sumar megineldstöðvar landsins minntu á sig. Vöktunarkerfi Veðurstofunnar er mjög gott og veitir vefsíða hennar okkur sjaldgæfa innsýn í snörl og hristing í innviðum helstu eldstöðvakerfa landsins, einkum í virkni í miðlægum eldfjöllum (megineldstöðvunum). Jarðskjálftavirkni er lífleg á Íslandi.

Það sést glöggt á vefsíðunni góðu og má rekja mest af skjálftum til hreyfinga jarðflekanna sem mjakast í gagnstæðar áttir um svæði sem liggur á ská þvert yfir landið og á Suðurlandi og úti fyrir Norðausturlandi.

Nú er vert að fylgjast vel með fimm megineldstöðvum: Heklu, Bárðarbungu, Grímsvötnum, Kötlu og Öræfajökli. Í Heklu hefur smáskjálftavirkni aukist nokkuð undanfarið og fjallið er bólgnara en það var fyrir eldgosið 2000. Bárðarbunga hristist og þeim fjölgar heldur skjálftunum yfir 3 og 4 að stærð. Dýpi á allmargra smærri skjálfta bendir til innkomu kviku í jarðlög undir fjallinu. Hlíðar þess lyftast, og öskjubotninn hreyfist, Grímsvötn er sú megineldstöð sem oftast gýs og minna gos 1998, 2004 og 2011 á það. Þar stefnir brátt í einhver umbrot, ef að líkum lætur. Katla hefur verið að hitna í bráðum tvo áratugi sem sést á fjölgun háhitasvæða undir jökli. Nokkurt landris hefur mælst þar, sem að hluta stafar af rýrnun jökulsins. Tíðni allharðra skjálfta í öskju eldfjallsins eykst og dýpi á suma smærri skjálftana er á bilinu 15-25 km. Það getur einna helst vísað til kviku á ferð. Frammi fyrir því er mikilvægt að hækka og styrkja veggarð við fjallsendann skammt frá Höfðabrekku sem á að varna vatnsflaumi leið inn að Vík. Undanfarin tæp tvö ár er tekið að bera á smáskjálftum í Öræfajökli sem ekki stafa af hruni í skriðjöklum og þar hefur mælst jarðskjálfti yfir 3 að stærð.

Hér verður löng saga eldstöðvanna og geta þeirra til umbrota ekki rakin en minnt á að við erum að mörgu leyti vel undir eldgos búin. Gosin eru engu að síður ávallt óskrifað blað og gott að efla vöktun, rannsóknir og viðbúnað.

Höfundur er jarðvísinda- og þingmaður




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×