Nokkur dæmi eru um þriggja flokka stjórnir. „Það hafa yfirleitt verið vinstri stjórnir,“ segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Fyrsta slíka stjórnin var mynduð árið 1947 og sat í tvö ár. Sú stjórn var kölluð Stefanía og var mynduð af Sjálfstæðisflokknum, Alþýðuflokknum og Framsóknarflokknum. Næsta stjórn var vinstri stjórn frá 1956 til 1958 sem var mynduð af Framsóknarflokknum, Alþýðubandalaginu og Alþýðuflokknum.
Árið 1971 til 1974 sat stjórn Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, Alþýðubandalagsins og Framsóknarflokksins og svo sat vinstristjórn Alþýðubandalagsins, Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins á árunum 1978 til 1979. Árið 1987 var mynduð þriggja flokka stjórn undir forystu Þorsteins Pálssonar, þáverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, með Framsóknarflokki og Alþýðuflokki. Stjórnin sprakk í beinni útsendingu á Stöð 2 rúmu ári seinna og þá var mynduð vinstristjórn sem var undanfari fjögurra flokka stjórnarinnar. „Síðan erum við bara með tveggja flokka stjórnir eftir það þangað til í fyrra,“ segir Gunnar Helgi.

Árið 1958 sat Alþýðuflokkurinn í minnihlutastjórn í skjóli Sjálfstæðisflokksins til að koma á breytingum á kjördæmaskipan. Árin 1979 til 1980 var Alþýðuflokkurinn í minnihlutastjórn þangað til kosningar voru haldnar. Þá var minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og VG mynduð 1. febrúar 2009. Hún naut hlutleysis Framsóknarflokksins.
„Þannig að það er engin hefð fyrir minnihlutastjórnum. Ef landslagið ætti að breytast myndi það kalla á töluvert breytt vinnubrögð,“ segir Gunnar Helgi.
Á fullveldistímanum hefur einungis ein utanþingsstjórn verið starfandi. Gunnar Helgi segir að það megi læra mjög margt af þeirri stjórn. „Það var stjórn sem var mynduð af ríkisstjóra sem þá var og hafði ekki þingmeirihluta. Hún réði bókstaflega ekkert við þingið og var í mjög veikri stöðu. Menn hafa ályktað út frá því að minnihlutastjórnir myndu ekki eiga glaða daga á Íslandi og myndi ganga illa að koma hlutum í gegnum þingið. En maður veit aldrei.“
Samstarf margra flokka í borgarstjórn
Þrátt fyrir að einungis eitt fordæmi sé fyrir fjögurra flokka meirihluta á Alþingi eru nokkur fordæmi fyrir því í sveitastjórnum. Nærtækast er að nefna núverandi meirihluta í Reykjavík, sem er myndaður af fjórum flokkum.
Þá var kosningabandalag R-listans upphaflega myndað af fimm stjórnmálahreyfingum, það er Alþýðuflokknum, Alþýðubandalagi, Framsóknarflokknum, Kvennalistanum og Nýjum vettvangi.
----
Hér í textanum var upphaflega fullyrt að ríkisstjórnin 1947-1949 og er alla jafna kölluð Stefanía hafi verið mynduð af Sjálfstæðisflokknum, Alþýðuflokknum og Alþýðubandalagi. Hið rétta er að hún var mynduð af Sjálfstæðisflokknum, Alþýðuflokknum og Framsóknarflokknum.