Skoðun

Vinstri og hægri

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Það er munur á vinstri og hægri. Jafnaðarmenn hugsa í grundvallaratriðum öðruvísi um þjóðfélagsmál en markaðshyggjumenn eða aðrir fulltrúar afmarkaðra hagsmuna. Jafnaðarmenn hafa hag heildarinnar að leiðarljósi. Það er hugsunin bak við norræna samfélagsmódelið: heilbrigt atvinnulíf með raunverulegri verðmætasköpun og öflugt velferðarkerfi þar sem virðing fyrir fólki ræður för. Þjóðfélag þar sem allar leikreglur miðast við hagsmuni fjármagnseigenda frekar en almennings, framleiðenda frekar en neytenda, fyrirtækjaeigenda frekar en verkafólks – það er ekki gott samfélag, ekki réttlátt og endar í þjófræði eins og dæmin sanna.

Það er munur á vinstri og hægri. Sjálfstæðisflokkurinn er stór og öflugur flokkur hægri manna, vel skipulagður og vanur því að ráða, með sitt fólk á völdum stöðum í kerfinu. Það getur vel verið að sumum okkar finnist það ágætt að hann stjórni þessu bara – það hafi reynst vel og honum hafi tekist vel upp í undanförnum tilraunum sínum til stjórnarmyndunar. Þá kjósum við hann. En ef við erum ekkert ánægð með völd Sjálfstæðisflokksins og viljum vinstri stjórn sem starfar í almannaþágu þá vandast málið. Dæmin sanna að atkvæði greidd miðflokkabandalaginu leiða til stjórnar með Sjálfstæðisflokknum. Og dæmin sanna líka að þeim mun veikari sem Samfylkingin er þeim mun ólíklegri er vinstri stjórn. Innan VG eru sterk öfl sem sjá sinn samherja í Sjálfstæðisflokknum en slíku er ekki að heilsa innan Samfylkingarinnar.

Það er grundvallarmunur á vinstri og hægri. Það getur verið varasamt að kjósa eftir einstökum upphlaupsmálum. Við ættum líka að varast að láta hatur og heift ráða atkvæðinu. Vænlegast er að kjósa eftir grundvallarlífsviðhorfi okkar – að kjósa jafnaðarmenn ef við eru jafnaðarmenn í hjarta okkar. Það er ágætt að láta hjartað ráða för.

 

Höfundur er í 1. sæti Samfylkingarinnar í Suðvestur­kjördæmi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×