Rúnar Kristinsson er tekinn við KR á nýjan leik og á að koma félaginu aftur í fremstu röð. Rúnar skrifaði undir þriggja ára samning við KR í dag. Hann tekur við af Willum Þór Þórssyni.
KR endaði í 4. sæti Pepsi-deildar karla á síðasta tímabili og komst ekki í Evrópukeppni í fyrsta sinn í áratug. Árangurinn olli vonbrigðum enda miklu til tjaldað í Vesturbænum.
„Við vitum allir hvað KR stendur fyrir. KR vill alltaf vera í toppbaráttu. Félagið gekk í gegnum erfitt ár sem við þurfum að snúa við og breyta. Við þurfum að koma KR aftur í Evrópukeppni, reyna að bæta árangurinn frá því í sumar og stefna hærra,“ sagði Rúnar í samtali við íþróttadeild í dag.
Rúnar gerir ráð fyrir að einhverjar breytingar verði á leikmannahópi KR fyrir næsta tímabil.
Leikmenn að renna út á samningi
„Já, nánast eins og á hverju ári. Það verða einhverjar breytingar og hreyfingar. Við munum missa einhverja leikmenn, það eru einhverjir að renna út á samningi og það þarf að skoða þau mál. Á sama tíma þurfum við að sjá hvar við þurfum að styrkja okkur til að vera með frambærilegt lið á næsta ári,“ sagði Rúnar sem segir mikilvægt að koma KR aftur í Evrópukeppni.
„KR hefur verið þar samfleytt í 10 ár. Það er sárt að ná ekki þeim áfanga en auðvitað koma mögur ár á milli. Við þurfum bara að vera snöggir að snúa þessu við og bæta okkur og styrkja.“
Rúnar er einn af dáðustu sonum KR. Hann lék með liðinu á árunum 1987-94 og 2007 og þjálfaði það svo með frábærum árangri á árunum 2010-14. Á þeim tíma varð KR tvisvar sinnum Íslandsmeistari og þrisvar sinnum bikarmeistari.
Erfið ákvörðun
Rúnar, sem var látinn taka pokann sinn hjá Lokeren í ágúst, segir að hann hafi þurft tíma til að hugsa næstu skref hjá sér en á endanum hafi verið erfitt að hafna KR.
„Ákvörðunin var mjög erfið. Maður lenti í áfalli að missa starfið úti í Belgíu. Við fjölskyldan ákváðum nokkuð fljótlega eftir það að flytja aftur heim og bíða átekta. Það voru ýmsir möguleikar í stöðunni en á endanum er erfitt að segja nei við KR. Þetta er mitt uppeldisfélag. Auðvitað þurfti ég umhugsunartíma en á endanum valdi ég að koma aftur til KR,“ sagði Rúnar.

