Ágúst Þór Gylfason varð í gærkvöldi fyrsti þjálfarinn í fjögur ár sem nær í öll sex stigin í boði í leikjum á móti liði Heimis Guðjónssonar.
Fjölnismenn unnu þá 2-1 sigur á FH á Extra vellinum í Grafarvogi en höfðu áður unnið 2-1 sigur á FH í fyrri leiknum í Kaplakrika í maímánuði.
Sigurleikir Fjölnis á FH eru athyglisverðir því fyrir þetta tímabil hafði Fjölnir aldrei náð að vinna FH í efstu deild.
Þegar liðin mættu í fyrri leikinn í maí þá voru FH-ingar búnir að vinna átta deildarleiki í röð á móti Fjölni og Fjölnismenn höfðu aðeins náð í 1 stig af 30 möguleikjum í leikjum á móti FH í úrvalsdeild karla.
Síðastur á undan Ágústi til að ná sex stigum á móti Heimi Guðjónssyni á einu tímabili var Rúnar Kristinsson sem gerði það tvö ár í röð með KR eða sumrin 2012 og 2013.
KR vann einnig báða leikina á móti FH í fyrrasumar en undir stjórn sitthvors þjálfarans.
Bjarni Guðjónsson stýrði þá KR í 1-0 sigrinum í fyrri leiknum í maí en þegar KR vann seinni leikinn í Kaplakrika í ágúst þá var Willum Þór Þórsson orðinn þjálfari Vesturbæjarliðsins.
Rúnar Kristinsson og Ágúst Þór Gylfason eru núna einu þjálfararnir sem hafa tekið sex stig á móti Heimi Guðjónssyni á einu tímabili frá því að Heimir tók við FH 2008 en það gæti mögulega einn til viðbótar bæst í hópinn á sunnudaginn.
Ejub Purisevic stýrði Víkingi Ólafsvík til sigurs á FH í fyrri leik liðanna í Kaplakrika en liðin mætast svo aftur í Ólafsvík um helgina. Það sem hafði ekki gerst í fjögur ár gæti því gerst tvisvar á aðeins fjórum dögum.
Sex stig á móti FH í þjálfaratíð Heimis Guðjónssonar 2008-2017:
Fjölnir 2017
2-1 sigur á útivelli (Ágúst Þór Gylfason, þjálfari)
2-1 sigur á útivelli (Ágúst Þór Gylfason, þjálfari)
KR 2016
1-0 sigur á heimavelli (Bjarni Guðjónsson, þjálfari)
1-0 sigur á útivelli (Willum Þór Þórsson, þjálfari)
KR 2013
4-2 sigur á útivelli (Rúnar Kristinsson, þjálfari)
3-1 sigur á heimavelli (Rúnar Kristinsson, þjálfari)
KR 2012
2-0 sigur á heimavelli (Rúnar Kristinsson, þjálfari)
3-1 sigur á útivelli (Rúnar Kristinsson, þjálfari)
Velkominn í hópinn Ágúst Gylfason
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið




Salah frábær og Liverpool í kjörstöðu
Enski boltinn



Liverpool væri á sömu slóðum og Man. Utd án Mo Salah
Enski boltinn

„Við þurfum annan titil“
Enski boltinn

