Borgarafundur fór fram á Ísafirði í dag þar sem virkjanir, laxeldi og vegamál voru í brennidepli. Fundurinn stóð yfir í rúmar þrjár klukkustundir og var sýndur í beinni útsendingu hér á Vísi. Boðað var til fundarins af Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Verkalýðsfélagi Vestfirðinga ásamt sveitarfélögunum á Vestfjörðum.
Í lok fundar var sett fram ályktun um að mat á samfélagslegum áhrifum verði í framtíðinni lagt til grundvallar stórframkvæmdum og lagasetningu þegar það á við. Jafnframt voru settar fram fram þrjár kröfur.
Að ráðist verði strax í vegagerð í Gufudalssveit samkvæmt leið um Teigsskóg, vegna brýnna hagsmuna sveitarfélaganna, atvinnulífsins og íbúa. Raforkumál á Vestfjörðum verði færð í nútímabúning með hringtengingu Vestfjarða um Ísafjarðardjúp, þannig að atvinnutækifærum fjölgi á Vestfjörðum. Einnig að Laxeldi verði áfram heimilað í Ísafjarðardjúpi og í því ljósi setji stjórnvöld fram, fyrir árslok, ákvæði um nauðsynlegar mótvægisaðgerðir til að verja laxveiðiár í Ísafjarðardjúpi gegn hugsanlegri hættu á erfðablöndun.
Ályktunin var samþykkt samhljóða.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, sátu fyrir svörum á borgarafundinum en Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra átti ekki heimangengt á fundinn.
Mat á samfélagslegum áhrifum verði lagt til grundvallar stórframkvæmdum og lagasetningu

Tengdar fréttir

Bein útsending: Virkjanir, laxeldi og vegir brenna á Vestfirðingum
Ráðherrarnir Bjarni Benediktsson, Jón Gunnarsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sitja fyrir svörum. Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra átti ekki heimangengt.

Laxeldi í Ísafjarðardjúpi hefði jákvæð áhrif á íbúaþróun og atvinnuuppbyggingu
Í Ísafjarðardjúpi hefur enn ekki verið veitt leyfi til laxeldis, en Hafrannsóknarstofnun hefur metið burðarþol þess.