Atkvæðagreiðslan hefur verið fordæmd víða um heim og þá hvað helst í Tyrklandi, þar sem Kúrdar hafa í áratugi barist fyrir sjálfstæði.

Bandaríkin hafa einnig lýst yfir óánægju með atkvæðagreiðsluna. Í tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu segir að hún muni skapa óstöðugleika.
Deilt um yfirráðasvæði
Atkvæðagreiðslan er einnig mjög umdeild í Írak og þá sérstaklega hvað varðar stór og olíurík svæði sem Kúrdar hafa hertekið af vígamönnum Íslamska ríkisins.
Sumarið 2014, þegar írakski herinn flúði undan stórsókn ISIS-liða komu Peshmerga-sveitir írakskra Kúrda í veg fyrir að sjálfstjórnarsvæði þeirra félli. Eftir að hafa látið undan um nokkuð skeið tókst Kúrdum að snúa vörn í sókn og í raun stækka yfirráðasvæði sitt. Þar á meðal er borgin Kirkuk, en á nærliggjandi svæðum má finna ríkar olíulindir, sem Kúrdar segjast nú eiga.
Kúrdar segja íbúa þeirra svæða sem þeir hafa hertekið taka þátt í atkvæðagreiðslunni í dag.
Í samtali við Reuters segir einn Kúrdi að þeir hafi séð það verra. „Við höfum upplifað óréttlæti, morð og umsátur.“
Við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar, þegar Ottóman-veldið féll gerðu þáverandi heimsveldi upprunalega ráð fyrir ríki Kúrda, sem iðulega er nefnt Kúrdistan, í Sevres-samkomulaginu árið 1920. Því var þó breytt þremur árum seinna, með Lausanne-samkomulaginu, og varð stærstur hluti landsins sem átti að verða Kúrdistan hluti að Tyrklandi.
Kúrdar eru nú á stórum svæðum í Írak, Íran, Tyrklandi og í Sýrlandi, þar sem þeir hafa náð miklu yfirráðasvæði af ISIS-liðum. Talið er að á milli 25 og 35 milljónir Kúrda séu á því svæði, samkvæmt frétt BBC.
Á síðustu hundrað árum hafa allar tilraunir Kúrda til að stofna eigið ríki verið kramdar af miklu afli.