Þetta kemur fram í færslu sem Sigurður Ingi birti á Facebook fyrir skemmstu. Þar bregst hann við fregnum af úrsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins, úr flokknum en í kjölfarið á því að hann hætti í flokknum hafa þó nokkrir aðrir flokksfélagar sagt skilið við Framsókn.
Sigurður Ingi segir í færslunni að atburðarás síðustu daga hafi valdið umróti í flokknum sem hafi orðið til þess að gott fólk hafi valið að yfirgefa flokkinn.
„Ég vil þakka þeim fyrir störf í þágu flokksins og óska þeim alls hins besta.
Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum í þá atburði sem urðu til þess að fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins ákvað að segja skilið við flokkinn. Þá atburði þekkjum við vel og höfum eðlilega á þeim mismunandi skoðanir. Það er nauðsynlegt að við núverandi aðstæður að taka stöðuna og ákveða hvernig hugsjónum og markmiðum Framsóknarflokksins verði best náð til heilla og hagsbóta fyrir alla landsmenn. Það gerum við með samstöðu og samvinnu alls þess góða fólks sem í flokknum starfar og stuðningsmanna hans.
Framsóknarflokkurinn á yfir 100 ára farsæla sögu. Vissulega hafa komið upp tilvik þar sem við erum ekki sammála, þar sem tekist er á um málefni en síðan komist að niðurstöðu með lýðræðislegum hætti. Við greiðum atkvæði og hlítum niðurstöðunni. Við ætlumst til þess að lýðræðisleg vinnubrögð séu viðhöfð í samfélaginu sem og í flokknum okkar,“ skrifar Sigurður Ingi en færslu hans má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.