Mótmæli Pittsburgh Steelers er þjóðsöngurinn var leikinn síðasta sunnudag hefur haft ýmsa eftirmála og lagst á sálina á leikmönnum.
Ákveðið var að allir leikmenn liðsins myndu bíða inn í klefa er þjóðsöngurinn var spilaður fyrir leikinn gegn Chicago Bears.
Einn leikmaður, Alejandro Villanueva, hljóp út á elleftu stundu og stóð einn er þjóðsöngurinn var leikinn. Hann er fyrrum hermaður og félagar hans skildu hann vel. Villanueva sér þó eftir öllu saman.
„Er ég sé þessa mynd af mér einum þá skammast ég mín því ég skildi liðsfélaga mína eftir og lét þá líta illa út. Þetta hefur haft áhrif á mína líðan og mér líður ekki vel með hvernig þetta fór allt saman,“ sagði Villanueva sem var hetja hjá mörgum fyrir athæfið og treyjurnar hans ruku út eftir leikinn.
Leikmenn Steelers hafa ákveðið að vera á vellinum um næstu helgi er þjóðsöngurinn verður leikinn. Leikstjórnandi liðsins, Ben Roethlisberger, fékk líka samviskubit út af mótmælunum.
Honum leið ekki vel með þau og viðurkenndi að hafa átt erfitt með svefn eftir leikinn.

