Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, sagði að sín fyrstu viðbrögð við því að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar væri fallin væru þau að hann hefði haldið að hann hefði kannski ýtt á vitlausan takka þegar hann sprengdi fyrir Dýrafjarðargöngum í gær.
Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig þegar hann kom til þingflokksfundar í Valhöll nú á ellefta tímanum en fundurinn hefst klukkan 11.
Valgerður Jónsdóttir, þingmaður flokksins, sagði við fjölmiðlamenn þegar hún kom til fundarins að staðan væri ekki góð. Hildur Sverrisdóttir og Teitur Björn Einarsson, þingmenn flokksins, vildu ekkert ræða við fjölmiðlamenn þegar þau komu í Valhöll.
Björt framtíð sleit í gær ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn í kjölfar fregna af því að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, hefði verið einn umsagnaraðila fyrir Hjalta Sigurjón Hauksson, dæmds kynferðisbrotamanns, þegar hann sótti um uppreist æru í fyrra.
Dómsmálaráðherra Sigríður Á. Andersen greindi Bjarna frá því í júlí að Benedikt faðir hans hefði mælt með uppreist æru fyrir Hjalta. Mánuði fyrr tilkynnti dómsmálaráðuneytið að það mæti það sem svo að ekki mætti birta nöfn umsagnaraðila.
Ríkisstjórnarsamstarf Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins hafði eins manns meirihluta á Alþingi. 32 þingmenn gegn 31 þingmanni úr stjórnarandstöðunni. Björt framtíð fékk fjóra menn á þing í kosningunum í fyrra.
Hélt að hann hefði kannski ýtt á vitlausan takka þegar hann sprengdi fyrir Dýrafjarðargöngum

Tengdar fréttir

Nokkrir möguleikar í stöðunni fyrir forsetann
Stjórnsýslufræðingi finnst líklegast í stöðunni að forsætisráðherra biðjist lausnar.

Þingfundi aflýst og flokkar funda
Á dagskrá var umræða um fjárlagafrumvarp Benedikts Jóhannessonar sem kynnt var á þriðjudagsmorgun.

Í beinni: Ríkisstjórnin fallin
Stjórn Bjartrar framtíðar sleit í gærkvöldi ríkisstjórnarsamstarfi flokksins við Sjálfstæðisflokksins og Viðreisn.