Skoðun

Þarf ölmusukort til að skoða Ísland?

Ögmundur Jónasson skrifar
Það er eins gott að gleyma ekki greiðslukortinu þegar farið er með fjölskylduna að skoða „landið okkar“. Þegar kostar það fimm hundruð krónur að koma við í þjóðgarðinum á Þingvöllum, fjögur hundruð á mann að ganga á Helgafell og fjögur hundruð kostar í Kerið, sex þúsund og fimm hundruð að skoða Víðgelmi í Hallmundarhrauni og einnig sex þúsund og fimm hundruð að skoða Raufarhólshelli, helming þar af í Vatnshelli á Snæfellsnesi, sjö hundruð mun kosta að parkera við Seljalandsfoss og sex hundruð í Skaftafelli, síðan er Dettifoss að koma með inngangseyri og fleiri og fleiri.

Nú kostar líka þrjú hundruð krónur að pissa í Hörpu og fjögur hundruð og níutíu að horfa á fjallahringinn úr Perlunni. Allt fær sitt verð. Hugmyndir hafa komið fram um að rukka inn í Skálholtskirkju, til dæmis fimm hundruð krónur svo gera megi við altaristöfluna. Möguleikarnir eru óþrjótandi.

Og allir ánægðir – að sögn. Fréttablaðið sýndi okkur í sumarbyrjun dansandi erlenda ferðmenn við Kerið í Grímsnesi undir fyrirsögninni „Ferðamenn sáttir við aðgangseyri í Kerið“. Þar borgar hver maður fjögur hundruð krónur til „eigenda“ þessarar náttúruperlu fyrir að fá að horfa á hana. Samkvæmt íslenskum lögum er þessi gjaldtaka óheimil enda enginn samningur verið gerður við Umhverfisstofnun eins og lög gera ráð fyrir. Fréttablaðið sagði okkur einnig að í fyrra hafi Kerfélagið rukkað fyrir sjötíu milljónir og væri hagnaður þar af þrjátíu milljónir. Blaðið hafði eftir talsmanni eiganda: „Við höfum ekki tekið neina ákvörðun um arðgreiðslu…“

Rukkunin er ólögmæt og jafnvel í þeim tilvikum sem heimila mætti gjaldtöku lögum samkvæmt væri arðtaka ólögmæt.

Hvernig væri að spyrja nánar út í þetta? Og hvernig væri að velta því fyrir sér hvernig það verður fyrir tekjulitla fjölskyldu að ferðast um Ísland ef fer sem horfir með rukkara á hverju horni? Nema að gefin verði út sérstök ölmusukort fyrir þá sem ella gætu aldrei notið landsins síns.

Og ef handhafar náttúruperlanna taka sitt úr vösum ferðamanna, mætti líka spyrja hve mikið verði eftir fyrir þá sem eru að selja raunverulega þjónustu.

 

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×