Blöndulón fór á yfirfall á þriðjudagsmorgun er vatnshæð lónsins náði 478 metrum yfir sjávarmáli.
„Mikið innrennsli er nú í lónið í norðanátt og rigningu og hækkaði yfirborð þess um 15 sentímetra síðustu tvo sólarhringana áður en það fylltist,“ segir í frétt á vef Landsvirkjunar. Þar með séu því öll miðlunarlón fyrirtækisins full. Hálslón hafi farið á yfirfall 19. ágúst og einnig Hágöngulón, og Þórisvatn sé fullt frá því í lok júlí.
Með yfirfallinu í Blöndulóni hallar á ógæfuhliðina fyrir laxveiðimenn í Blöndu þar sem áin verður verulega lituð við þessar breytingar. Veitt er í Blöndu til 20. september.
