Skoðun

Græðgi og skortur

Árný Björg Blandon skrifar
Ég sé svo skýrt fyrir mér tvær öfgakenndar andstæður hér á landi.

Peningagræðgi og peningaskort.

Á meðan sumir lifa fyrir að græða bæði á ferðamönnum og löndum sínum, þá skrimtir eldra fólk á lélegri mánaðarafkomu og ungt fólk nær ekki endum saman.

Hvað í ósköpunum þarf til, þannig að öllum líði vel og allir séu sáttir við sitt án þess að það bitni á öðrum?

Kærleikur! Að þykja jafn vænt um náungann eins og sjálfan sig!

Það er allavega góð og gæf byrjun.

Þú reynir ekki að græða á fólki ef það er raunverulegur kærleikur í hjarta þínu. Þú setur þig í þeirra spor.

Þú hjálpar fólki að eiga fyrir sig og sína ef það er raunverulegur kærleikur í hjarta þínu. Þú setur þig í þeirra spor.

Við höfum sýnt, að þegar ákveðnar erfiðar aðstæður koma upp hjá einstaklingum hér á landi eða jafnvel þeim sem lenda í erfiðum aðstæðum erlendis, t.d. vegna hamfara, þá erum við dugleg að millifæra af reikningunum okkar. 

Það er svo fallegt og gefur alltaf til baka! Og sýnir að peningar eru til.

Í landinu okkar eru allt of margir sem skrimta frá einum mánuði til annars. Geta lítið veitt sér annað en þetta nauðsynlegasta, ef það, og þurfa að horfa í hverja krónu.

Aðrir finna sér leiðir til að græða. Kaupa t.d. köku í Krónunni á 1,200 kr., skera í 6 sneiðar og selja hverja sneið á 1,200 kr. 

Eða eins og við fréttum í fjölmiðlum, það er reynt að selja vatnið okkar hreina og dásamlega! Ferðamönnum sagt að vatnið sé nú ekki gott til drykkjar, því er tappað á flöskur sem eru seldar fyrir nokkur hundruð krónur stk. 

Við þurfum að finna kærleiksleiðina. 

Það á við ráðamenn þjóðarinnar líka sem alltaf eru á leiðinni að gera gott úr öllu en virðast ekki takast það mjög vel þótt þeir lofi ýmsum aðferðum til þess. 

Eldra fólk sem hefur rutt kynslóðum leið á svo margan hátt, á betra skilið en að skrimta.

Ungu fólki langar að eignast eigin íbúð, en þarf að leigja, á meðan aðrir græða á því að leigja íbúðir sínar og herbergi á þvílíku verði að manni svimar. 

Ég veit um nokkur tilfelli þar sem fólki var sagt upp leiguhúsnæði sínu af því að það sást leið til þess að græða meira á húsnæðinu.

Þetta eru bara nokkrar pælingar af mörgum.

Stundum finnst mér erfitt að vera Íslendingur.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×