Sveinn Breki Hróbjartsson var einn Íslendinganna í hópnum sem kom að Frakkanum þar sem hann var að reyna að húkka sér far. Sveinn segir þann franska hafa verið afar áhyggjufullan. Ekki hafi bætt úr skák að hann talaði enga ensku og því reyndist erfitt að átta sig á vandræðum hans. Sveinn og félagar höfðu ekki hugmynd um að leit stæði yfir að manninum.
„Hann hafði bullandi áhyggjur, var í smá losti og frekar illa klæddur. Hann var símalaus en reyndi að muna númerið hjá konunni sinni, en mundi það ekki,“ segir Sveinn Breki. Þeir hafi lítið skilið í honum og hringt í franskan vin sinn sem hafi reynt að setja sig í hlutverk túlks. Það skilaði litllu.

„Það lifnaði yfir honum og hann var farinn að grínast, orðinn kampakátur.“
Sveinn Breki var sem fyrr segir í sex daga hálendisferð á vegum Bike Company ásamt félaga sínum Friðjóni Snorrasyni og 24 Bandaríkjamönnum. Þeir voru komnir á áfangastað sinn um kvöldið en ákváðu að skjótast í kvöldferð að Þjófafossi.
Hópurinn sneri þó við á leiðinni þangað, af tilviljun að sögn Sveins Breka, og hjóluðu í flasið á þeim franska. Sendu þeir hópinn á undan sér en þeir Sveinn og Friðjón urðu eftir með þeim franska og hjálpuðu honum að komast til vina sinna.