Ýmir vann 19-0 sigur á Kóngunum í C-riðli 4. deildar í gær.
Það er kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að leikmaður Ýmis, Samúel Arnar Kjartansson, skoraði hvorki fleiri né færri en 10 mörk í leiknum.
Samúel hefur verið iðinn við kolann í sumar og er kominn með 36 mörk í 11 leikjum fyrir Ými, eða 3,3 mörk að meðaltali í leik. Algjörlega fráleit tölfræði, jafnvel þótt stórir sigrar sjáist oft í 4. deildinni.
Samúel hefur einu sinni skorað 10 mörk í leik, einu sinni sjö mörk, tvisvar sinnum fimm mörk og einu sinni fjögur mörk.
Samúel er langmarkahæstur í öllum deildum á Íslandi í sumar. Sá næstmarkahæsti, Alexander Lúðvígsson hjá KH, hefur skorað 18 mörk, eða helmingi færri en Samúel.
Alls hefur Samúel skorað 103 mörk í 118 deildar- og bikarleikjum á ferlinum.

