Það er gríðarlega mikið undir í seinni leik FH og Maribor í 3. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Liðið sem fer áfram er öruggt með sæti í annað hvort riðlakeppni Meistaradeildarinnar eða Evrópudeildarinnar. Það hefur ekkert íslenskt lið afrekað áður.
Það eru einnig gríðarlega háar fjárhæðir í boði fyrir sigurliðið. Komist FH t.a.m. alla leið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar fær liðið ekki minna en 1,8 milljarða króna.
Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, segir að leikmenn liðsins reyni að hugsa sem minnst um þessi mál.
„Þetta er risaleikur. Við áttum okkur alveg á því. En það er ekki hægt að setja þá pressu á íslenskt lið að slá lið frá Slóveníu, sem hefur verið í riðlakeppni Meistara- og Evrópudeildarinnar undanfarin ár, út,“ sagði Davíð í samtali við Vísi.
Faðir Davíðs, Viðar Halldórsson, og þeir sem ráða hjá FH verða eflaust ansi stressaðir í kvöld.
„Þeir eru stressaðir þótt við séum að spila í deildabikarnum í febrúar,“ sagði Davíð og hló.
„Auðvitað eru miklir peningar í húfi. En þeir væru mjög lélegir stjórnendur ef þeir væru að „budgeta“ með þessum peningi inn í næsta ár. Ég vona að svo sé ekki,“ sagði fyrirliðinn að lokum.
Leikur FH og Maribor hefst klukkan 18:30 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD. Þá verður hægt að fylgjast með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi.
Davíð Þór: Eru stressaðir þótt við séum að spila í deildabikarnum í júlí

Tengdar fréttir

Íslandsmeistararnir búnir að krækja í franskan varnarmann
Íslandsmeistarar FH hafa samið við franska varnarmanninn Cédric D'Ulivo.

Minnst 750 milljónir króna bíða FH-inga með sigri í kvöld
Það er heilmikið í húfi fyrir FH sem mætir slóvensku meisturunum í NK Maribor í kvöld, bæði innan vallar sem utan. Sigur tryggir FH-ingum minnst tæplega 400 milljónir króna en tekjurnar gætu stóraukist með enn betri árangri.

Áttum okkur á því að þetta er risaleikur
FH leikur einn stærsta leik í sögu félagsins þegar liðið mætir Maribor frá Slóveníu í 3. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar annað kvöld. Sigurvegari rimmunnar spilar í Evrópukeppni fram að áramótum.

FH fær króatískan kantmann
Íslandsmeistarar FH hafa samið við Matija Dvornekovic, 28 ára króatískan kantmann.