Hér með fréttinni má sjá myndir sem voru teknar á Kjalvegi og í nágrenni við Kerlingarfjöll í sumar og í fyrrasumar. Þær sýna utanvegaakstur og þær afleiðingar sem hann kann að hafa.
Undanfarið hefur verið fjallað mikið um bíl sem ekið var í Esjuhlíðar og olli skemmdum. Fréttablaðið greindi frá því í gær að viðurlög við utanvegaakstri væru sektargreiðslur eða fangelsi allt að tveimur árum samkvæmt lögum. Yfirleitt er málum lokið með sektargreiðslum sem nema á bilinu eitt til tvö hundruð þúsund krónur. Snæbjörn Guðmundsson, formaður Landverndar, tekur undir það að vandinn sé mikill og hugsanlega þurfi að þyngja viðurlög með hærri sektum. „Ég sé enga ástæðu til þess að vera eitthvað sérstaklega mjúk í þessu. Því þetta er víða mikið vandamál,“ segir Snæbjörn.

Páll Gíslason vill vakningu til að menn haldi sig innan þeirra ramma sem vegir og slóðar marka meðan jörð er auð og snjólaus. „Svipað og herferðin Hreint land – fagurt land forðum,“ segir hann. En ráðist var í það átak fyrir nokkrum árum til að koma í veg fyrir náttúruspjöll og rusl og annan óþrifnað í bæjum og til sveita, meðfram þjóðvegum og áningarstöðum ferðamanna.


