Þar varð uppi fótur og fit, myndavélar fóru á loft og allir vildu ræða við nýbökuðu mömmuna. Ýmir tók athyglinni með stóískri ró. „Ég var ekki búin að hugsa þetta til enda en kannski var bara fínt að klára þetta á einu bretti.“
Spurningarnar snerust fæstar um leikinn en meira um móðurhlutverkið.
„Kannski finnst okkur Íslendingum það orðið eðlilegra að pabbinn sé að sjá um börnin á meðan mamman sér um önnur verkefni,“ segir Harpa.
„Þeir voru aðallega að spá í það hver væri eiginlega að sjá um barnið fyrst að ég væri að spila hér. Sem betur fer á hann pabba. Ég held að það væri ekki mikið um fréttir ef mamman væri hinum megin við borðið eins og Kalli er núna,“ segir Harpa og vísar til föðurins, Jóhannesar Karls Sigursteinssonar, sem heldur til í sumarhúsi með synina tvo meðan á EM stendur.
Harpa dvelur þó hjá þeim á nóttunni að frátalinni nóttinni fyrir leik þegar landsliðið gistir í borginni þar sem leikið er hverju sinni.

„Mér finnst bara geggjað að Dagný sé stimpluð sem þriggja barna móðir því hún verður svo móðguð bara ef einhver kallar hana konu. Ég vil að fólk deili endilega þessari frétt svo hún fari sem víðast.“
Svo virðist sem Dagnýju hafi verið ruglað saman við Hörpu, nýbakaða tveggja barna móður, og Málfríði Ernu Sigurðardóttur sem á þrjú börn. „Okkur fannst þetta mjög fyndið. Þetta var mikið rætt í matnum fyrir leikinn,“ segir Málfríður hlæjandi. Ekki var minna hlegið þegar umfjöllun UEFA eftir leik var skoðuð.
„Þar kom fram hvað þriggja barna móðirin Dagný væri í geggjuðu formi,“ segir Málfríður og hlær.
Stelpurnar mæta Sviss á laugardaginn en liðið hefur ekki skorað í síðustu fjórum leikjum. Markadrottningin Harpa hefur litlar áhyggjur af því. „Við erum búin að fara vel í gegnum sóknarleikinn og varnarleikinn. Þetta dettur með okkur, bara spurning um hvar og hvenær.“