Erlent

Rússar óánægðir með hertar refsiaðgerðir

Kjartan Kjartansson skrifar
Paul Ryan, forseti fulltrúadeildarinnar, sagði refsiaðgerðirnar herða á skrúfunum gegn á helstu andstæðingum Bandaríkjanna.
Paul Ryan, forseti fulltrúadeildarinnar, sagði refsiaðgerðirnar herða á skrúfunum gegn á helstu andstæðingum Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Stjórnvöld í Kreml segja að hertar refsiaðgerðir Bandaríkjamanna geri út um möguleikann á að koma samskiptum ríkjanna í eðlilegt horf og torvelda samstarf í baráttunni gegn hryðjuverkum. Bandarískir þingmenn samþykktu hertar refsiaðgerðir vegna afskipta Rússa af forsetakosningunum í gær.

Sergei Ryabkov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, segir að ríkisstjórn hans sé kominn á fremsta hlunn með að svara refsiaðgerðunum í sömu mynt. Kremlverjar telji refsiaðgerðirnar fjandsamlegar og þeir séu þreyttir á að sýna yfirvegun, að því er Reuters-fréttastofan greinir frá.

Þá segir Franz Klintsevitsj, áhrifamikill öldungadeildarþingmaður í Rússlandi, að samstarf Bandaríkjamanna og Rússa í baráttunni gegn hryðjuverkum verði flóknara og jafnvel ómögulegt.

Trump þarf samþykki þingsins til að afnema refsiaðgerðirnar

Yfirgnæfandi meirihluti bandarískra fulltrúadeildarþingmanna samþykkti að herða refsiaðgerðirnar í gær. Þær voru upphaflega settar á til að refsa rússneskum stjórnvöldum vegna innlimunar þeirra á Krímskaga í Úkraínu og síðar fyrir afskipti af bandarísku forsetakosningunum í fyrra.

Refsiaðgerðirnar beinast að háttsettum rússneskum embættismönnum og setja skilyrði og takmarkanir á viðskipti við rússnesk fyrirtæki.

Sjá einnig:Herða þvinganir gegn Rússum þvert á mótmæli Trump

Donald Trump forseti, sem hefur sagst vilja bæta samskipti við Rússland, er sagður sérlega ósáttur við að frumvarpið sem þingmennirnir samþykktu kveði á um að hann þurfi samþykki þingsins til að nema refsiaðgerðirnar úr gildi.

Öldungadeild Bandaríkjaþings á enn eftir að samþykkja refsiaðgerðirnar áður en þær verða sendar Trump til undirskriftar. Óvíst er hvort að Trump muni beita neitunarvaldi sínu til að koma í veg fyrir að frumvarpið verði að lögunm, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Frumvarpið felur einnig í sért hertar aðgerðir gegn Írönum og Norður-Kóreumönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×