Danska landsliðið vann fyrsta leik sinn í A-riðli EM kvenna sem fer fram í Hollandi í dag en Sanne Troelsgaard skoraði eina mark leiksins í upphafi leiks.
Leikurinn var nýhafinn þegar Pernille Harder átti sláarskot úr aukaspyrnu frá vítateigsboganum en Troelsgaard var mætt og vann skallaeinvígi inn í teignum til þess að skalla boltann í netið af stuttu færi.
Belgar voru meira með boltann í leiknum, áttu fleiri skot og fengu fleiri hornspyrnur en náðu ekki að koma boltanum framhjá Stina Petersen í marki danska liðsins.
Danska liðið komst því upp að hlið Hollands með sigrinum í dag en þessi tvö lið mætast á fimmtudaginn.
