Suðaustanlands má búast við vindi yfir 15 m/s og snörpum vindhviðum síðdegis í dag og er því varasamt fyrir farartæki sem taka á sig vind. Mun hægari vindur verður vestantil á landinu. Þetta kemur fram í textaspá á vef Veðurstofu Íslands.
Þá má búast við mikilli rigningu á Suðausturlandi fram undir hádegi með tilheyrandi vatnavöxtum í ám. Búist er við að stytti þar upp í kvöld. Rigning verður með köflum á vestanverðu landinu, einkum í kvöld.
Austan og suðaustan 5-15 metrar á sekúndu á morgun, hvassast syðst. Skýjað að mestu sunnanlands en úrkomulítið. Rigning á Vestfjörðum og Snæfellsnesi seint á morgun. Bjartviðri norðaustanlands bæði í dag og á morgun.
Hiti 10 til 18 stig en allt að 25 stigum norðaustanlands.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag:
Austan og suðaustan 5-10, skýjað að mestu sunnanlands en þurrt að kalla, en bjartviðri norðantil. Hiti 10 til 23 stig, hlýjast norðaustanlands.
Á föstudag, laugardag, sunnudag, mánudag og þriðjudag:
Hægviðri og skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Hiti yfir 20 stigum inn til landsins.
Búist við mikilli rigningu suðaustantil fram undir hádegi
Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
