Skoðun

Stríðsiðnaðurinn nærður

Auður Lilja Erlingsdóttir og Stefán Pálsson skrifar

Liðna daga hafa landsmenn fengið fréttir af stórfelldum flotaæfingum Natóherja hér við land. Ekki skortir háfleyga stuðningsmenn hernaðarbandalagsins sem lofsyngja viðbúnaðinn og telja hann stuðla að friði og öryggi. Ekkert er fjær sanni. Staðreyndin er sú að Atlantshafsbandalagið hefur engu jákvæðu hlutverki að gegna á sviði öryggismála í heiminum. Þvert á móti má færa rök fyrir því að það sé það fyrirbæri í veröldinni sem helst grafi undan öryggi almennings. Nató hefur allt frá stofnun sinni fyrst og fremst gegnt því hlutverki að framfylgja stefnu Bandaríkjastjórnar í alþjóðamálum og verið hentugt tæki til að nota í stríðum þeim sem stjórnin í Washington kýs að stofna til.



Hagsmunir vopnaframleiðenda

Aðildarríki Nató eru í hópi mestu vopnaframleiðenda og vopnakaupenda heims. Hagsmunir vopnaframleiðenda eru einatt í forgangi hjá leiðtogum bandalagsríkja, líkt og sjá hefur mátt á liðnum vikum þegar Bandaríkjamenn hafa undirritað stóra vopnasölusamninga við bæði Sádi-Arabíu og Katar á sama tíma og löndin eru komin í hár saman. Linnulaus innspýting vopna inn á svæði sem þegar logar í ófriði mun aðeins gera illt verra.



Nató var í aðalhlutverki í Líbýustríðinu fyrir sex árum og hefur nú í sextán ár staðið í hernaði í Afganistan sem ekki sér fyrir enda á. Bæði þessi stríð eru veigamiklar ástæður fyrir flóttamannabylgju síðustu ára. Þrátt fyrir algjört skipbrot íhlutunarstefnu sinnar sýnir Nató og aðildarríki þess engin merki um breytta stefnu.



Flotaæfingarnar eru hneisa

Nató hefur með eldflaugakerfum sínum stuðlað að því að endurvekja kjarnorkuvopnakapphlaupið og meðlimir þess hafa staðið gegn öllum tilraunum til að banna slík vopn. Af þessu má sjá að það eru engir aufúsugestir sem hafst hafa við í íslenskri landhelgi á síðustu dögum. Gleymum því ekki að megintilgangur heræfinga er einmitt sá að undirbúa stríð og þjálfa sig í manndrápum. Flotaæfingar Nató á Íslandi eru hneisa.

 



Auður Lilja Erlingsdóttir og Stefán Pálsson. Höfundar eru formaður og ritari Samtaka hernaðarandstæðinga




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×