Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari í handbolta, hefur bætt línumanninum Atla Ævari Ingólfssyni og markverðinum Ágústi Elí Björgvinssyni við íslenska hópinn sem mætir Úkraínu á sunnudaginn.
Strákarnir okkar eru í bullandi basli í undankeppni EM 2018 eftir tap gegn Tékklandi í gærkvöldi og eiga í hættu að komast ekki á Evrópumót í fyrsta skipti síðan árið 1998.
Atli Ævar spilaði vel fyrir Sävehof í sænsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en liðið komst í undanúrslitin í úrslitakeppninni.
Ágúst Elí Björgvinsson átti svo stórleik í marki FH á síðustu leiktíð sem varð deildarmeistari og tapaði fyrir Val í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn.
Íslenska liðið er á heimleið frá Brno í Tékklandi þar sem það tapaði leiknum mikilvæga í gærkvöldi en strákarnir okkar eiga enn þá veika von á EM-sæti með sigri á Úkraínu á sunnudaginn.
Atli Ævar og Ágúst Elí koma inn í hópinn

Tengdar fréttir

Nánast búnir að Tékka sig út
Von íslenska karlalandsliðsins í handbolta um að komast á tíunda Evrópumótið í röð er orðin ansi veik eftir tap fyrir Tékklandi, 27-24, í Brno í gær. Afleitur fyrri hálfleikur varð Íslendingum að falli í leiknum.

Umfjöllun: Tékkland - Ísland 27-24 | Strákarnir sjálfum sér verstir í Tékklandi
EM-draumur strákanna okkar er svo gott sem dáinn eftir grátlegt tap gegn Tékkum ytra. Ísland átti möguleika að fá að minnsta kosti stig úr leiknum en fór hrikalega illa að ráði sínu.